top of page
DSCF8759_edited.jpg

Úlfljótsvatn, sem er tengt við Þingvallavatn, var nefnt eftir Úlfljóti, fyrsta lögsögumanni Alþingis. Hann dvaldi í þrjú ár í Noregi til að kynna sér lög sem hægt væri að nota fyrir hið nýstofnaða íslenska samfélag og Grímur Geitskór fóstbróðir hans ákvað að Þingvellir væru besti staðurinn til að halda Alþingi. Árið 930 fór fyrsta Alþingi fram þar og fyrstu lögin, sem nefnd voru Úlfljótslög, voru sett. Þetta markaði upphaf íslensku þjóðarinnar. 

Þingvellir eru sérstaklega mikilvægir í sögu skógræktar á Íslandi, en þar fóru fram fyrstu tilraunir með árangursríka trjáplöntun vorið 1899, þegar um 4400 trjám var plantað, þar á meðal fjallafuru (Pinus mugo), birki (Betula pubescens) og hvítgreni (Picea glauca). Úr þessum gróðursetningum varð Furulundur til. Skógræktarfélag Íslands var einnig formlega stofnað 27. júní 1930 á Þingvöllum, þar sem fjórtán árum síðar var lýst yfir sjálfstæði Íslands frá Danmörku. Skógræktarfélag Íslands fagnaði níutíu ára afmæli sínu í Furulundi á aðalfundi 2021 (seinkað um ár vegna Covid-19 faraldursins). 


Þingvellir og Úlfljótsvatn eru því hvoru tveggja mikilvægir staðir bæði hvað varðar sögu og skógrækt. Jörðin okkar er nágranni þjóðgarðsins á Þingvöllum og í nágrenninu má finna marga áhugaverða staði eins og gíga, fossa, hveri, vötn og fjöll en einnig stóra skógarlundi. Þar er einnig eitt fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins – Gullni hringurinn. 

Sigurður Sigurðsson, fyrsti formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ræðu þann 27. júní 1930 í Almannagjá á Þingvöllum við stofnun félagsins. Höfundur: Hákon Bjarnason. Heimild: Sigurður Blöndal & Skúli Björn Gunnarson, Íslandsskógar. Hundrað ára saga, Mál og Mynd, 1999. 

Póstkort frá Úlfljótsvatni. Sofus Eymundsson, 1890-1911. Heimild: Danska þjóðminjasafnið - skjalasafn á vef.

Úlfljótsvatnsbær, Matthías Þórðarson, 1924. Heimild: Sarpur - Þjóðminjasafn Íslands.

Eins og sjá má á þessum gömlu póstkortum og ljósmyndum var gamla húsið með torfþaki staðsett mun neðar í hlíðinni og nær kirkjunni. En þegar fyrsta virkjun svæðisins - Ljósafossvirkjun - var reist árið 1937 hækkaði vatnsborðið mikið eða um 1 metra og olli miklum skemmdum á strönd vatnsins.... Talið er að það sé ástæðan fyrir því að húsið var flutt ofar í hlíðina, þar sem það stendur nú. 


Kirkjan var byggð árið 1863, en kirkjuturninum og kirkjuklukkunum var bætt við árið 1961. Kirkjuklukkurnar eru þó mun eldri, en á þeim stendur “E.B.S. ANNO 1744”, sem þýðir að þær eru frá 1744 og því 280 ára gamlar nú árið 2024. Hægt er að hlusta á upptöku af klukkunum klingja á vefnum Kirkjuklukkur Íslands.

Úlfljótsvatnsjörðin var í eigu Orkuveitu Reykjavíkur en var keypt árið 2011 af Skógræktarfélagi Íslands, Bandalagi íslenskra skáta og Skátasambandi Reykjavíkur. Félögin þrjú hafa síðan þá átt og rekið landið í nánu samstarfi og hafa þau hvert sitt hlutverk. Skátafélögin eiga Útilífsmiðstöðina á Úlfljótsvatni og sjá um tómstunda- og æskulýðsmál. Skógræktarfélag Íslands á Úlfljótsvatnsbæinn og kirkjuna og sér um skógrækt og skógarnytjar. 


Skátabúðir hafa hins vegar verið starfræktar þarna frá árinu 1941 og árið 1987 stofnaði hópur skáta Skógræktarfélag skáta á Úlfljótsvatni sem hefur verið ötult við að gróðursetja tré á svæðinu. Þökk sé þeirra framlagi má finna nokkra spennandi skógarlundi á Úlfljótsvatni sem skátar, skólahópar, sjálfboðaliðar og gestir sem koma til okkar á hverju ári skoða.

Þórunnartún 6

105 Reykjavík

Iceland

+354-551-8150

skog@skog.is

www.skog.is

The Lake House of Úlfljótsvatn

Úlfljótsvatnsbær

Grafningsvegur Efri

805 Selfoss

Iceland

+354-783-9531

ulfoskog@gmail.com

FOLLOW US 

  • Facebook
  • Instagram
bottom of page