top of page
  • ulfoskog

Kafað í Úlfljótsvatnsskóg!



Kafað í Úlfljótsvatnsskóg!


Úlfljótsvatns er næst kaldasta stöðuvatn landsins. Aðeins þeir ævintýragjörnustu leggja í að dýfa sér í það á heitum sumardegi og mestu munu passa sig á að detta ekki úr eikjum (kanó) á ferð um vatnið. Úlfljótsvatn leynir hins vegar á sér og býður upp á margvísleg tækifæri til að njóta sumardaga, hvort sem þeir eru heitir og sólríkir eða kaldir, hvassir og blautir!


Skógræktarfélag skáta á Úlfljótsvatni gróðursettu árið 1990 landgræðsluskóg þar í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands. Síðan hefur skógurinn vaxið og dafnað og má finna þar marga áhugaverða staði, tré- og aðrar plöntutegundir, fugla (ugla hefur sést þar í ár!) og skordýr. Sveppir eru byrjaðir að stinga sér upp og auðvelt að tína þar bláber og hrútaber á haustin.


Þess vegna var tekið á móti átta sjálfboðaliðum á Úlfljótsvatni nú í sumar í tvær vikur, frá 22. júlí til 4. ágúst, til að vinna að bættu aðgengi að skóginum og öðrum skógartengdum verkefnum, svo að allir gestir og aðrir sjálfboðaliðar sem koma geti uppgötvað og notið skógarins okkar!



Verkefnið „Að skapa spennandi skóg fyrir æskuna“ (Creating an exciting forest for youth) var styrkt af Erasmus+ sjóð Evrópusambandsins og komu sjálfboðaliðar frá Ungverjalandi, Írlandi, Frakklandi, Grikklandi og Svíþjóð saman í Fossbúð, litlum kofa í eigu skátanna í útjaðri skógarins. Voru það þau Márton, Irène, Ciara, Félicien, Frej, Madeleine, Alexandros og Vinciane.


Sambærilegt verkefni var unnið árið 2023 og var reynslan af því svo jákvæð að ákveðið var að halda áfram í ár með nýjan hóp. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi Skógræktarfélags Íslands, Skógræktarfélags skáta á Úlfljótsvatni, Útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni og Bandalags íslenskra skáta, með aðstoð Rannís, umsjónaraðila European Solidarity Corps á Íslandi. Skógræktarfélagið Skáta við Úlfljótsvatn fékk styrk frá Landgræðslusjóði til að kaupa efna og plöntur.


Gerður var nýr 480 m stígur frá jaðri skógarins að krossi sem trónir yfir svæðinu. Var það gert til að auka öryggi barna og annarra sem ganga daglega að krossinum frá Útilífsmiðstöðinni og þurfa oft að ganga eftir veginum sem liggur þar hjá.


Stígurinn var hannaður og síðan lagður af sjálfboðaliðunum. Sett voru þrep til þæginda í bröttum brekkum og möl lögð á helming stígsins til að lengja líftíma hans.




Sjálfboðaliðarnir gróðursettu auk þess og báru á um 550 birkitré úr Landgræðsluskógaverkefninu á opnum svæðum til auka útbreiðslu skógarins.



Sjálfboðaliðarnir eyddu einnig einum eftirmiðdegi í gróðrarstöðinni Kjarr þar sem hver og einn fékk að kynnast ræktun trjáa og þeim tegundum sem þrifist geta hérlendis og mikilvægi skjólbelta við ræktun.




Heimsókninni í Kjarr lauk með því að hver sjálfboðaliði fékk að velja sér tvö tré til gróðursetningar á Úlfljótsvatni, með ráðleggingum starfsfólks og eigenda gróðrarstöðvarinnar.



Trén sextán voru svo gróðursett í skóginn með viðhöfn við nýja stíginn til að stækka trjásafnið sem vísir er að þar nú þegar. Hver sjálfboðaliði fékk mynd með „sínum“ plöntum (sjá hér fyrir neðan).


Verkefninu lauk svo með því að sjálfboðaliðarnir hjálpuðu til að klippa lúpínu á svæði sem ætlað er fyrir jólatrjáarækt, en þar höfðu upprennandi jólatrjám verið plantað í fyrra. Gefur það litlu trjánum betri tækifæri á að vaxa upp úr lúpínunni og örvar vöxt þeirra um leið og það dregur úr útbreiðslu lúpínunnar innan skógarins og flýtir fyrir að lúpínan hörfi úr uppvaxandi furureitum.


Sjálfboðaliðarnir létu ekki rigningaveður og mikið af mýflugum á sig fá heldur sýndu ákveðni, forvitni og áhuga á þeim fjölbreyttu verkefnum sem þeim voru fengin. Þau náðu miklum árangri á skömmum tíma og voru allir aðilar verkefnisins ánægðir með svona frábæran hóp.


Á síðasta vinnudegi sjálfboðaliðanna færði starfsfólk Útilífsmiðstöðvarinnar sjálfboðaliðunum hið græna merki „Sjálfboðaliðastarfs Úlfjótsvatns“ sem merki um stuðning þeirra við grænni framtíð, sjálfbærara samfélag, samstöðu með heimamönnum og náttúrufræðslu komandi kynslóða sem ganga munu um skóginn. Sjálfboðaliðarnir héldu heim með European Solidarity Corps staðfestingu sína, uppfull af nýrri færni og þekkingu á íslenskri náttúru og hvernig vinna má með umhverfinu til að takast á við áhrif loftslagsbreytinga.



Með verkum sínum og gróðursetningu á trjám hjá okkur bættu sjálfboðaliðarnir upp fyrir kolefnisfótspor ferða sinna hingað og rúmlega það, en á næstu 50 árum munu trén sem þau settu niður binda 180,4 tonn CO2 umfram það sem losað var.

 

Hvað er til ráð ef vatnið er allt of kalt fyrir þig? Farðu bara í skógarbað í skátaskóginum á Úlfljótsvatni! Kannski kemurðu auga á ugluna eða eitthvað af litlu trjánum sem sjálfboðaliðarnir okkar gróðursettu…



Plöntumyndir


Ciara frá Írlandi gróðursetti ilmreyni og gráelri.


Madeleine frá Frakklandi gróðursetti lindifuru og lyngrós.


Márton frá Ungverjalandi gróðursetti beyki og lyngrós.


Vinciane frá Frakklandi gróðursetti sunnubrodd og hegg.


Alexandros frá Grikklandi gróðursetti beyki og reynitré.


Irène frá Frakklandi gróðursetti hegg og blágreni.


Frej frá Svíþjóð gróðursetti alaskaepli og degli.


Félicien frá Frakklandi gróðursetti fjallareyni og degli.



Höfundur: Elisabeth Bernard

Ljósmyndarar: Elisabeth Bernard, Elín Esther Magnúsdóttir, Ciara Luther-Gavin, Julien Dubos & Ragnheiður Jósuadóttir

32 views0 comments

コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page